Verkefni þroskaþjálfa í Sunnulækjarskóla

Þroskaþjálfar starfa með nemendum með sérþarfir. Þeir vinna á skipulegan hátt að því að stuðla að jákvæðum viðhorfum, efla færni og auka skilning á fjölbreytileika samfélagsins.

Þroskaþjálfar skólans vinna í náinni samvinnu við kennarateymin. Þar fá þeir upplýsingar um viðfangsefnin sem framundan eru og mæta þörfum skjólstæðinga sinna í takt við starfið í árgöngunum. Þorskaþjálfar sinna einnig ráðgjöf til kennara og starfsmanna.

 

Helstu verkefni þroskaþjálfa í Sunnulækjarskóla eru meðal annars:

Gerð áætlanna:

  • Teymisáætlanir - Vinna skal áætlun um stuðning í námi og kennslu skv. 10. gr. Reglugerðar um nemendur með sérþarfir. Slík teymisáætlun er unnin af fagfólki skólans í teymisvinnu með foreldrum, sérfræðingum í skóla-, félags- og heilbrigðisþjónustu. Í teymisáætlun skal skrá fulltrúa í teymi nemandans og festa niður fundaskipulag skólaársins. Gera skal grein fyrir þörf fyrir aðlögun í námi hvað varðar námsaðstöðu, námsgögn og vinnustýringu.
    Áætlunin skal grundvölluð á upplýsingum um heildaraðstæður nemenda og mati á stöðu þeirra í námi. Ennfremur skal áætlunin taka til annarrar þjónustu við fatlaða nemendur. Á teymisfundum skal meta hvernig aðlögunin virkar og hvað hindrar þátttöku. Teymisáætlunin skal undirrituð af fulltrúum í teyminu sem upplýst samþykki fyrir aðlögun á skólastarfi.
  • Teymisfundir nemenda - Reglulegir teymisfundir eru haldnir yfir skólaárið með foreldrum nemenda með þroskafrávik eða miklar sérþarfir og þeim sem sem sitja í nemendateyminu í skólanum. Teymisstjóri boðar til teymisfunda. Þar er fjallað um þarfir nemandans,skipulag kennslu og stundaskrá. Nemendum er skipt niður í A teymi sem fundar 3x á skólaárinu eða B teymi sem fundar 2x á skólaárinu.
  • Móttökuáætlanir - Móttökuáætlun skal gerð, í samræmi við 9.gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir, fyrir nemendur sem eru að hefja skólagöngu eða að byrja nám í skólanum. Í slíkri áætlun skal m.a. gera grein fyrir samstarfi innan skólans um skipulag kennslunnar, aðbúnaði, aðstöðu, notkun hjálpartækja, skipulagi einstaklingsnámskrár, kennsluháttum og námsmati, hlutverki umsjónarkennara, sérkennara og annarra fagaðila innan skólans og samstarfi við foreldra. Tilgreina skal áform skólans um stuðning við nemendur til félagslegrar þátttöku og virkni í skólasamfélaginu, svo sem í félagslífi og tómstundastarfi skólans. Í slíkri áætlun skal einnig gera grein fyrir samstarfi við aðra aðila
    utan skólans. Móttökuáætlun skal unnin af fulltrúum í teymi nemandans og í samstarfi við fagfólk í leik- eða grunnskóla sem nemandinn er að flytjast frá.

Efla félagsfærni:

  • Félagsfærnisögur - eru stuttar sögur, oft með myndum, sem hjálpa nemandanum í ýmsum aðstæðum. Sögurnar er auðvelt er að útbúa og nota. Sagan er lesin með nemandanum áður en það fer í viðkomandi aðstæður. Það má síðan taka söguna með og til dæmis hafa hana í töskunni og rifja upp ef á þarf að halda.
  • VERUM VINIR - 6-8 vikna námskeið til að efla félagsfærni og læra aðferðir til að eignast góða vini. Markmið námskeiðsins er að styðja barnið í félagslegri færni, að kenna barninu aðferðir til að eignast góða vini. Efla frumkvæði að jákvæðum samskiptum og tengslum við skólafélaga. Leggja áherlsu á hagnýtar og hjálplegar leiðir til að takast á við vanda. Auka sjálfskilning með því að setja orð á hugsanir sínar, tilfinningar og reynslu. Að skilja aðra með því að lesa í líkamstjáningu og svipbrigði og læra að setja sig í spor annarra, tjá vilja sinn og skoðanir. Að mestu er unnið með aðlöguð verkefni úr 1. hluta bókarinnar „Verum vinir“ eftir Lawrence E. Shapiro í þýðingu Helgu A. Haraldsdóttur sem heitir „Að eignast vini“. Einnig er unnið með CAT – kassan sem er sjónrænt skipulag sem hægt er að nota til að skýra út, auka sjálfsvitund, ræða um persónulega reynslu og finna nýjar og hentugri aðferðir til samskipta og til að tjá hugsanir sínar og tilfinningar. Sjá nánar á http://www.cat-kit.com/is/ Þá er einnig notast við félagfærnisögur um tilfinningar og vináttu. Unnið með þætti úr ART (Agression Replacement training) - færniþættina að hrósa,
    hlusta, biðjast afsökunar og þakka fyrir sig.
  • SÁTT - Í SÁTT er unnið með félagsfærni, sjálfsstjórn og siðferði. Ýmis verkfæri eru nýtt s.s.Cat kassinn, ART. Í þessum tímum er unnið í litlum hópum og eru þeir skiptir eftir getu og þroska. Tímarnir eru skipulega settir upp, myndrænir/skriflegir, með skýru upphafi og endi. Í upphafi tímans er innlögn, þar sem farið er yfir þann færniþátt sem sem leggja á inn en stundum þarf að vinna með sama færniþáttinn aftur og aftur, með hléi á milli. Jafnframt gera nemendur stutt verkefni sem tengjast því sem unnið er með. Í skólastarfinu er sífellt verið að vinna með þessa þætti alla daga.
  • CAT – KASSINN - er hugræn tilfinningaleg þjálfun. Cat- kassinn er sjónrænt skipulag sem hægt er að nota til að skýra út, auka sjálfsvitund, ræða um persónulega reynslu og finna nýjar og hentugri aðferðir til samskipta og til að tjá hugsanir sínar og tilfinningar. Markmið Cat- kassans er því að styðja við samræður við börn og ungmenni sem eiga í erfiðleikum með að tjá sig beint um tilfinningar, hugsanir og upplifanir. Sjá nánar á http://www.cat-kit.com/is/
  • ART - stendur fyrir Aggression Replacement Training og er fastmótað uppeldisfræðilegt þjálfunarmódel sem hefur það að markmiði að fyrirbyggja óæskilega hegðun og kenna aðrar leiðir til að leysa samskipta-, tilfinninga- og hegðunarvanda. Í ART er félgsfærni, sjálfsstjórn og siðferðisvitund þátttakenda þjálfuð. Þessir þættir eru meðal annars þjálfaðir með sýnikennslu, hlutverkaleik, jákvæðri styrkingu, æfingum og umræðum og fléttast oft inn í aðra félagsfærniþjálfun.

Útbúa og aðlaga myndræn kerfi:

  • Námsumhverfið - Hafa þarf í huga að stundum þarf að hanna námsumhverfnið á ýmsan hátt, aðlaga fyrir nemandann, það getur falið í sér eitthvað af eftirfarandi: Staðsetning hluta í rýminu skiptir miklu máli. Vel skipulagt umhverfi gefur sjónrænar vísbendingar og auðveldar skilning á til hvers er ætlast á hverjum stað í rýminu. Skipuleggja þarf umhverfið þannig að nemandinn sjái hvar hann á að vera við hverja athöfn t.d. hvar á að borða, vinna o.s.frv. Draga þarf úr öðru sjónrænu og heyrnrænu áreiti. Hjálpa nemandanum að horfa á aðalatriðin en ekki aukaatriðin.
  • Stundatöflur - Stundaskrár eru undirstaða skipulags í allri vinnu nemenda og nauðsynlegt er að nemandi með t.d. einhverfu hafi fasta stundaskrá yfir daginn. Stundaskráin gefur nemandanum upplýsingar um hvað hann á að gera, hvenær, hvar og með hverjum. Stundaská getur spannað allt frá hluta úr degi, til viku, verið skrifuð, myndræn eða búin til úr hlutum, allt eftir þörfum nemandans. Stundaskráin veitir öryggi, dregur úr kvíða og er notuð til að nemandinn læri að gera greinarmun á athöfnum og þannig fær hann einnig vísbendingu um tíma. Ýmis form eru til af stundaskrám: Stundaskrár með hlutatáknum, stundaskrár með myndum, stundaskrár með orðum og myndum og skrifuð stundaskrá. Stundaskráin er einstaklingsmiðuð. Það fer eftir getu hvers og eins hvaða tegund af sjónrænum vísbendingum er á stundaskránni, hversu margar athafnir eru settar á stundaskránna í einu, fer einnig eftir getu nemandans.
  • Vinnukerfi - Skipulagt vinnukerfi gefur einstaklingnum upplýsingar um: Hvað á að gera, hve lengi á að gera, hvenær er hann búinn og hvað gerist svo á eftir. Þarna er á hreinu hvað á að kenna og hvaða færni er mikilvæg fyrir einstaklinginn að hafa á valdi sínu. Vinnukerfin þurfa að vera í stöðugri þróun t.d. frá hinu einfalda yfir í skriflegar upplýsingar á blaði eða bók.
  • Stýringar - Sjónrænar leiðbeiningar einfalda nám, breytingar, yfirfærslu og draga úr heyrnrænu áreiti, verkefnin verða skýr og skipulögð, beina athyglinni að mikilvægu atriði þ.e. því sem skiptir máli, minnkar nauðsyn á nálægð kennara. Með skipulögðum vinnuverkefnum eru m.a. sjálfstæð vinnubrögð kennd og þar er nemandinn er að fá verkefni við sitt hæfi.

Önnur verkefni:

Aðlögun á verkefnum - þar sem verkefni bekkjarins eru aðlögun að náms- og þroskagetu nemandans.
Útbúa verkefni - Búa til verkefni til að vinna að ákveðnum færniþáttum.
Ráðgjöf til foreldra, kennara og annars starfsfólks
Seta í Lausnarteymi skólans.

Hlutverk þroskaþjálfa og sérkennara
Hlutverk þroskaþjálfa og sérkennara III
Hlutverk þroskaþjálfa og sérkennara II
Hlutverk þroskaþjálfa og sérkennara I