Aðgerðaráætlun Sunnulækjarskóla gegn einelti

Nemendur og starfsmenn í Sunnulækjarskóla eru sammála um að einelti verði ekki liðið í skólanum. Leitað verður leiða til að fyrirbyggja einelti í skólanum með fræðslu og umræðum og leysa á farsælan hátt þau mál sem upp koma. Sunnulækjarskóli á að vera öruggur vinnustaður þar sem öllum á að líða vel.

Skilgreining
Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á einstaklingi sem á erfitt með að verjast. Einelti felur í sér misbeitingu á valdi með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og hann finnur til varnarleysis.

Einelti birtist í mörgum myndum og fer oft fram þar sem enginn sér og einstaklingur sem verður fyrir einelti segir oft ekki frá því heldur skammast sín.

Einelti getur verið:

Líkamlegt: barsmíðar, spörk, hrindingar …

Munnlegt: uppnefni, niðrandi athugasemdir, endurtekin stríðni …

Skriflegt:   neikvæð tölvu- og símasamskipti, krot, bréfasending ...

Óbeint:      neikvæð líkamstjáning, baktal, útskúfun eða útilokun úr félagahópi...

Efnislegt:   eignum stolið, þær eyðilagðar…

Andlegt:    þvingun til að gera eitthvað sem stríðir gegn réttlætiskennd og sjálfsvirðingu...

Það er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis

Hugsanlegar vísbendingar um einelti

Tilfinningalegar

  • breytingar á skapi, tíður grátur, viðkvæmni
  • svefntruflanir, martraðir
  • breyttar matarvenjur, lystarleysi, ofát
  • lítið sjálfstraust, hræðsla og kvíði
  • depurð, þunglyndiseinkenni, sjálfsvígshugsanir

Líkamlegar

  • líkamlegar kvartanir, t.d. höfuðverkur og magaverkur
  • Kvíðaeinkenni, t.d. nagar neglur, stamar og ýmis konar kækir
  • líkamlegir áverkar, s.s. skrámur og marblettir sem barnið getur ekki útskýr
  • rifin föt og/eða skemmdar eigur

Félagslegar

  • virðist einangrað og einmana
  • fer ekki í og fær ekki heimsóknir
  • fáir eða engir vinir og barnið vill ekki taka þátt í félagsstarfi

Hegðun

  • óútskýranleg skapofsaköst og/eða grátköst
  • neitar að segja frá hvað amar að
  • árásargirni og erfið hegðun

Í skóla

  • hræðist að fara eitt í og úr skóla, biður um fylgd og/eða fer aðra leið
  • leggur fyrr eða seinna af stað í skólann en venjulega
  • mætir iðulega of seint eða byrjar að skrópa
  • forðast ákveðnar aðstæður í skólanum t.d. leikfimi og sund
  • hættir að sinna náminu, einkunnir lækka, einbeitingarörðugleikar
  • einangrar sig frá skólafélögum
  • forðast að fara í frímínútur

Á heimili

  • barnið neitar að fara í skólann
  • dregur sig í hlé
  • biður um auka vasapening
  • týnir peningum og/eða öðrum eigum
  • neitar að leika sér úti eftir skóla
  • byrjar að leggja önnur börn eða systkini í einelti
  • reynir að fá foreldra sína til að tala við kennarann, skólafélagana eða aðra foreldra
  • verður niðurdregið eða órólegt eftir frí.

Helstu forvarnir

Til þess að fyrirbyggja einelti þarf samstillt átak og ábyrgð nemenda, forráðamanna og starfsmanna skólans. Miðlun góðra lífsgilda, regluleg fræðsla og umræður um eineltismál og afleiðingar þeirra eru nauðsynlegar. Allir þurfa að deila ábyrgð, sýna virðingu og láta sig líðan annarra varða.

Í Sunnulækjarskóla viljum við að nemendur þjálfist í að vinna í hópum og sýni tillitssemi, virðingu, ábyrgð, sveigjanleika og umburðarlyndi. Efli sjálfstraust og samkennd sem stuðlar markvisst að frekari þátttöku í lýðræðislegu samstarfi.

Bekkjarstarf, til að stuðla að jákvæðum samskiptum og góðum skólabrag

  • Umsjónarkennari fer reglulega yfir eineltisáætlun skólans sem og skólareglur/samskiptareglur með sínum bekk.
  • unnið með tæki úr verkfærakistu Uppeldis til ábyrgðar, s.s. þarfir, hlutverk og bekkjarreglur.
  • Reglulegir bekkjarfundir haldnir þar sem líðan, samskipti og hegðun eru rædd.
  • Gott er að nota tengslakannanir til að fá gleggri mynd af samskiptamynstri og félagslegri stöðu nemenda í bekknum.
  • Skólinn nýti hinn árlega dag gegn eineltitil þess að vekja athygli á mikilvægi góðra samskipta með það að markmiði að vinna gegn einelti.

Sjálfsmat nemenda

  • Tvisvar á vetri gera nemendur sjálfsmat og skýra frá eigin líðan. Matið vinna nemendur heima hjá sér í vikunni fyrir foreldraviðtölin sem eru á haust- og vorönn.
  • Æskilegt er að kennari nái að fara yfir matsblaðið fyrir foreldraviðtölin og undirbúi þau í takt við niðurstöður.
  • Komi fram vísbendingar um einelti við matið gerir umsjónarkennari eineltisteymi viðvart.

Vinatengsl milli árganga

  • Árlega eru skipulögð vinatengsl milli yngri og eldri nemenda í skólanum.
  • Þessi tengsl eru vel til þess fallin að auka samheldni og samstöðu nemenda skólans.
  • Á söngstundum, litlu jólunum og við önnur tækifæri eru þessi vinatengsl virkjuð.

Samstarf heimilis og skóla

  • Mikilvægt er að byggja upp gott samstarf heimila og skóla í meðferð og vinnslu eineltismála.
  • foreldrar/forráðamenn fái reglulegar upplýsingar um stöðu og eftirfylgni eineltismála sem varðar þeirra barn.
  • niðurstöður úr foreldra- og nemendakönnun Skólapúlsins nýttar í vinnu gegn einelti

Starfsmenn skólans

  • Aðgerðaráætlun gegn einelti er kynnt í upphafi hvers skólaárs á starfsmannafundi sem liður í forvörnum.
  • Virk gæsla í frímínútum, skólahúsi og vettvangsferðum á vegum skólans er mikilvæg forvörn.

 

Meðferð eineltismála í Sunnulækjarskóla

Ef grunur leikur á eða staðfesting liggur fyrir að einelti eigi sér stað er það skýr stefna skólans að tekið sé á málinu strax.

Nauðsynlegt er að vitneskja um einelti berist til umsjónarkennara, stjórnenda skólans eða náms- og starfsráðgjafa.

Umsjónarkennari og/eða sá starfsmaður sem fær vitneskju um einelti skal taka á málinu strax. Umsjónarkennari byrjar á að hafa samband við aðila úr eineltisteymi. Þeir hafa samráð um viðbrögð og aðgerðir.  Í eineltitsteymi skólans sitja aðstoðarskólastjóri, deildarstjórar stiga og náms- og starfsráðgjafi.

Eineltismál eru mismunandi og fer vinna hvers máls eftir eðli þess. Meta þarf hvort um aðstæður sé að ræða þar sem hætta er á ferðum. Alltaf skal rannsaka málið.

Grunur um einelti

Viðbrögð:

  • Sá sem tekur við skriflegri tilkynningu kemur henni til eineltisteymis sem ákveður verkaskiptingu.
  • Skráning hefst.
  • Ábyrgðaraðili hefur samband við forráðamenn barns sem grunur leikur á að verði fyrir einelti, aflar frekari upplýsinga og greinir frá næstu skrefum. Áætlun er unnin í samráði við forráðamenn þolanda sem stendur til boða að sitja upplýsingaviðtal með barni sínu.
  • Upplýsa starfsfólk skólans sem kemur að nemandanum.
  • Afla upplýsinga og auka eftirlit í kennslustundum og frímínútum.
  • Kanna líðan og bekkjaranda.
  • Ræða við valda nemendur.
  • Ef vinnsla málsins leiðir í ljós að ekki er um einelti að ræða er málinu lokið formlega með undirskrift foreldra og gerðar viðeigandi ráðstafanir eftir eðli málsins, t.d. ef um samskiptavanda er að ræða. Minnisblað með undirskrift skal varðveita í persónumöppu nemanda.

Ef einelti á sér stað

Ef ljóst er að einelti hefur átt sér stað þarf að skipuleggja einstaklingsviðtöl við þolanda, geranda og forráðamenn.

Í öllum tilvikum er geranda gefin skýr skilaboð um að einelti sé ekki liðið og skólinn muni með öllum ráðum leitast við að eineltinu ljúki.

Einelti heldur áfram

Ef  aðgerðir bera ekki árangur þarf að fylgja málinu frekar eftir:

  • Frekari samvinnu og samráð við forráðamenn þolanda og geranda.
  • Meira eftirlit, viðurlög.
  • Vísa máli til lausnateymis sem kemur því í viðeigandi farveg.

Skáning er liður í að hafa yfirsýn yfir eðli og umfang eineltismála í skólanum. Mikilvægt er að ljúka vinnu allra mála í samráði við forráðamenn með skriflegum hætti.  Gögn eru varðveitt í persónumöppu nemanda.

 

Gátlisti fyrir umsjónarkennara - forvarnir gegn einelti

  • Fór yfir aðgerðaráætlun og eineltisyfirlýsingu með bekknum
  • Sendi aðgerðaráætlunina og eineltisyfirlýsingu á foreldra
  • Reglulegir bekkjarfundir
  • Gerði bekkjarsáttmála (Uppeldi til ábyrgðar)
  • Gerði tengslakönnun
  • Gerði líðankönnun
  • Vann markvisst með niðurstöður könnunar
  • Fræðsla um einelti fyrir nemendur (skrá fjölda skipta)
  • Útskýrt hvað einelti er
  • Fara vel yfir muninn á einelti og öðru neikvæðu áreiti
  • Ólíkar gerðir eineltis
  • Mikilvægi þess að segja frá
  • Mikilvægi þess að taka afstöðu gegn einelti - vera ekki hlutlaus
    áhorfandi
  • Fara yfir hvað felst í góðum samskiptum
  • Jákvæðir og neikvæðir leiðtogar. KVAN
  • Hvernig er hægt að byggja upp góðan bekkjaranda, KVAN

Leikir 

  • Hlutverkaleikir (æfa sig að setja sig í spor annarra)
  • Samvinnuleikir (KVAN)
  • Horft á fræðsluefni um einelti
  • Lesnar sögur - frásagnir af einelti
  • Þátttaka í vinaviku

Bækur

  • Verum saman (samveru bækurnar) - Sigrún Aðalbjarnardóttir
  • Hugarfrelsi - Hrafnhildur Sigurðardóttir & Unnur Arna Jónsdóttir
  • Ekki meir - Kolbrún Baldursdóttir
  • Að ná tökum á tilverunni - lífsleikniefni
  • Spor bækurnar - lífsleikniefni
  • Höndlaðu hamingjuna á unglingsárum - Andrew Matthews
  • Uppeldi til ábyrgðar - verkfærakista
  • Verkfærakistan - Vanda Sigurgeirsdóttir KVAN
  • Leiðbeiningar fyrir umsjónarkennara og stjórnendur bekkjarfunda - Ingileif Ástvaldsdóttir
  • Undir heillastjörnu - hugleiðslur og heillakort
  • 7 venjur fyrir káta krakka - Sean Cove

Vefsíður - kennsluefni á vef