Íþróttir og skólasund

sports

Handbók fyrir nemendur og foreldra

Hvers vegna íþróttakennsla?

Hreyfingarleysi er eitt helsta heilsufarsvandamál nútímans. Hreyfing eykur úthald, orku og almenna vellíðan. Jákvæð upplifun barna og unglinga af hreyfingu eykur líkur á því að þau haldi áfram að hreyfa sig á fullorðinsárum.

Í skólanum fá allir nemendur tvær kennslustundir í íþróttir og eina kennslustund í sundi á viku. Þar að auki geta nemendur í 8.—10. b tekið íþróttaval sem aukagrein. Aðaláherslan er að börnin séu með, geri sitt besta og taki þátt með jákvæðu hugafari.

 

Útiíþróttir

Á haustin þegar skólinn byrjar eru nemendur í mjög misjöfnu ásigkomulagi. Sumir hafa stundað íþróttir af kappi yfir sumartímann en aðrir ekki.

Gott er að byggja upp úthald og þrek með hreyfingu utandyra og því mun öll íþróttakennsla fara fram utandyra í þrjár vikur í byrjun og lok skólaársins. Nemendur koma því með fatnað og skóbúnað sem hentar til íþróttaiðkunar utandyra með tilliti til veðurs.

Reglur í íþrótta- og sundtímum

  • Allir nemendur eiga að mæta í íþróttir og sund með íþrótta/sundfatnað og mælt er með sundgleraugum í sundi
  • Þeir sem eru veikir, gleyma fötum eða forfallast af öðrum ástæðum taka ekki þátt í íþróttatíma (sjá samskiptareglur fyrir neðan)
  • Í sundlaug er í boði að fá lánuð sundföt og því ekki í boði að horfa á
  • Foreldri/forráðamaður skal tilkynna forföll nemenda á skrifstofu skólans
  • Vottorðum þarf að skila árlega inn á skrifstofu skólans
  • Nemendur skulu vera tilbúnir á réttum tíma og bíða í klefanum þar til kennari sækir þá
  • Tyggjó o.þ.h. hlutir eru ekki leyfðir í íþróttahúsi og sundlaug. Minnum við á símalausan skóla
  • Mælst er til þess að nemendur í 5.-10. bekk séu í innanhússkóm í íþróttatímum. 3.-4. bekkur má koma með skó en í 1. og 2. bekk eru skór ekki leyfðir. Útiskór eru ekki leyfðir

Samskiptareglur við foreldra - íþróttir

Það getur að sjálfsögðu komið fyrir að nemendur gleymi íþróttafötum, hægt er að fylgjast með inn á mentor (gleymd íþróttaföt) en þetta er verkferlið hvað það varðar: 

1-4.bekkur: Eru alltaf með í tímanum en við sendum póst heim eftir þriðja skiptið sem íþróttafötin gleymast til að minna á þau. Ef vandinn er viðvarandi verður boðað til fundar.

5-7.bekkur: Þau sem gleyma íþróttafötum og/eða eru með leyfi í íþróttum vegna veikinda/meiðsla fá verkefni sem þau munu leysa. Ef vandinn er viðvarandi verður boðað til fundar.