Nemendur í 8. bekk í íþróttavali Sunnnulækjarskóla enduðu valáfangann á hjóla- og klifurferð við Ingólfsfjall þriðjudaginn 14. maí. Vaskur hópur barna, ásamt kennara, lagði af stað hjólandi að björgunum við Ingólfsfjall á móts við Laugabakka. Mótvindurinn var fremur mikill á leiðinni svo sumum leist ekki á blikuna að komast alla leið en allir komust nú á áfangastað. Þar tók Björgunarfélag Árborgar á móti okkur klifjuð tækjum og tólum og fengu allir sem vildu að prófa að síga í bjargi. Auk þess nutu krakkarnir náttúrunnar, klifruðu í grjótunum og borðuðu nesti. Sólin skein og vindurinn hafði hægt um sig þarna svo að stemmingin var góð. Heimferðin á hjólinu var einkar skemmtileg með meðvindinn í bakið nær alla leið svo að ferðin sóttist hratt. Björgunarfélag Árborgar fær sérstakar þakkir fyrir góðar móttökur.