Í tilefni af Baráttudegi gegn einelti var haldin vinasöngstund í Fjallasal skólans þar sem sungin voru nokkur falleg lög sem tengjast vináttu og kærleik. Við það tækifæri samþykktu nemendur eineltisyfirlýsingu Sunnulækjarskóla með handauppréttingu. Þar hafa þeir sett sér markmið um að útrýma einelti með öllu.
Meðal laga sem sungin voru í morgun voru lögin Allir þurfa að eiga vin, Á íslensku má alltaf finna svar og Líttu sérhvert sólarlag.
Fyrir 11 árum hófst vinabekkjaverkefni í Sunnulækjarskóla. Verkefninu er þannig háttað að allir nemendur skólans mynda vinatengsl milli nemenda í eldri og yngri bekkjum. Markmiðið er að nemendur á ólíkum aldri kynnist og efli samkennd og virðingu meðal nemenda. Kennarar skipuleggja nokkrar heimsóknir á milli vina inn á hvort heimasvæði yfir skólaárið. Vinir fara einnig saman í söngstundir og á Litlu jólunum dansa vinir saman í kringum jólatréð. Eldri nemendur sækja þá yngri og fylgja þeim í Fjallasal þar sem farið er yfir hversu mikilvægt það er að eiga vini og að allir séu góðir við aðra.
.