Þriðjudaginn 22. maí fór fram hönnunarsamkeppni í Sunnulækjarskóla.
Nemendur í 8. bekk hafa undanfarnar vikur verið að vinna verkefni í náttúrufræði þar sem þau þurftu að hanna bíl sem gekk fyrir rafmagni. Nemendur endurnýttu gömul raftæki, rifu þau í sundur og tóku úr þeim litla mótora sem notaðir voru til að knýja bílana. Einnig var reynt að nota sem mest af endurvinnanlegu efni í bílana, eins og flöskur, tappa, pappakassa og dósir. Markmiðið var að láta bílinn keyra og svo var keppt í þrem flokkum.
Brautarkeppni þar sem nemendur létu bílinn keyra eftir braut og söfnuðu stigum eftir því hversu vel gekk á brautinni.
Frumlegasti bíllinn þar sem skoðað var útlit og frumleiki bíls og svo besta hönnun bíls en þar var verið að huga að smáatriðum bílanna, hvort þeir væru t.d með straumrofa og þess háttar og í heild hversu vel bíllinn var hannaður til að virka.
Keppnin fór fram í Fjallasal þar sem nemendur úr 7. og 10. bekk fylgdust með. Í dómnefnd sátu Steinunn Húbertína, raungreinakennari, Áslaug Jónsdóttir, textílkennari og Lárus Gestsson smíðakennari. Keppnin var mjög spennandi og munaði aðeins 5 stigum á sigurliði og því sem hafnaði í öðru sæti. Verkefnið er hluti af raungreinakennslu skólans þar sem markmiðið er að efla áhuga á tæknimennt og kenna nemendum grunn hugsun rafmagnsfræðinnar og hvernig einföld tæki geta virkað.
Bestu þakkir fá Landsbankinn og Pylsuvagninn fyrir að gefa vinninga í keppnina, einnig fá foreldrar og aðrir sem gáfu raftæki í verkefnið bestu þakkir.
Mynd 1. Rebekka og Guðbjörg með bílinn sinn sem vann best hannaði bíllinn
Mynd 2. Jón, Benjamín, Friðveig og Sigríður með bílinn sinn sem vann frumlegasta bílinn
Mynd 3. Viktor, Ása, Eva, Heiðar og Sindri með bílinn sinn sem sigraði brautarkeppnina með 70 stigum.
Mynd 4-7 bílar úr verkefninu.