Leiksýning og umferðarfræðsla hjá 10. bekk

10. bekkur fór á leiksýninguna Samninginn síðastliðinn fimmtudag í leikhúsinu við Sigtún. Sjálfstæði listhópurinn Smyrsl hefur ferðast með sýninguna undanfarna mánuði og hún fékk góðar viðtökur hjá nemendum og starfsmönnum Sunnulækjarskóla. Að lokinni sýningu tóku allir þátt í málstofu með aðstandendum sýningarinnar og það vakti lukku, enda gaman að fá tækifæri til að ræða t.d. við leikarana um túlkun þeirra og boðskap verksins.  

Fyrrverandi nemandi skólans er einn þriggja leikara í Samningnum, Rakel Ýr Stefánsdóttir, en aðrir leikarar eru Jónas Alfreð Birkisson og Ragnar Pétur Jóhannsson. Jökull Smári Jakobsson leikstýrir og leikritshöfundur er Helgi Grímur Hermannsson.  

Mánudaginn 28. maí, fengu krakkarnir svo fræðslu um umferðaröryggi og hætturnar sem þeir þurfa að forðast nú þegar bílprófið nálgast. Það voru Berent Karl Hafsteinsson, eða Benni Kalli eins og hann er kallaður, ásamt lögreglunni sem ræddu við krakkana í bíósalnum á Selfossi.​