Föstudaginn 6. október kl. 9:00 var rýmingaræfing í Sunnulækjarskóla. Rýmingaræfing hefur það að markmiði að þjálfa nemendur og starfsmenn í að fara með skipulögðum og yfirveguðum hætti út úr skólabyggingunni og að taka manntal nemenda og starfsmanna á skólalóð að rýmingu lokinni.
Æfingin tókst framar vonum og ekki liðu nema 6 mínútur þar til byggingin var mannlaus. Manntal nemenda tók síðan um 6 mínútur og að því loknu tók aðrar 6 mínútur að staðfesta að allir starfsmenn væru til staðar á skólalóðinni. Heildarfjöldi þátttakenda í æfingunni var um 760 manns.
Heildartími æfingarinnar var því um 18 mínútur.
Tilgangur æfinga sem þessarar er tvíþættur, annars vegar að þjálfa nemendur og starfsmenn og hins vegar að læra af reynslunni hvað má betur fara.
Að þessu sinni er niðurstaðan sú að með breyttu verklagi teljum við okkur geta stytt þann tíma sem manntal starfsmanna tekur.