Rýmingaræfing í Sunnulækjarskóla

Í morgun æfðum við rýmingu skólahússins samkvæmt fyrirliggjandi rýmingaráætlun. 


Áætlunin gerir ráð fyrir að þegar rýma þurfi húsið fylgi hver nemendahópur kennara sínum út um næsta neyðarútgang í tvöfaldri röð og safnist síðan saman á fyrirfram ákveðnum stað á skólalóðinni.  10 manna hópur starfsmanna er í hlutverki “eftirreka” sem fara yfir öll svæði skólahússins og tryggja að hvergi sé nemandi eða starfsmaður sem eftir sitji.

Þegar út er komið er tekið manntal allra, bæði nemenda og starfsmanna.


Æfingin gekk í alla staði vel og tókst að rýma húsið á 4 mínútum. Eftir 10 mínútur og 30 sekúndur var búið að taka manntal nemenda en 4 mínútur og 20 sekúndur þurfti til viðbótar til að ljúka manntali starfsmanna.  Í heild tók æfingin því 14 mínútur og 50 sekúndur.


Af æfingunni lærðum við að einfalda þarf manntal starfsmanna og líklega að hafa það á fleiri höndum svo unnt sé að ljúka því á skemmri tíma.  Einnig var ákveðið að hafa aðstandendalista með gsm númerum foreldra með í þeim gögnum sem ritari tekur með sér úr húsi ef nauðsyn reynist að hafa samband við foreldra.


Að síðustu uppgötvuðum við að alveg gleymdist að taka myndir af æfingunni og því fylgir gömul mynd þessari frétt.