Vinadagar

Vinadagar fara fram í Sunnulækjarskóla á hverju ári og hefjast yfirleitt í byrjun desember. Vinadagar eru þannig að eldri nemendur fá yngri nemendur að vini.

Reynt er að para saman árgöngum eftir því hvernig fjöldinn passar best saman.  Sumstaðar þurfa samt að vera tveir saman um einn vin.

Markmið vinadaga er að nemendur á ólíkum aldri kynnist og að efla samkennd og virðingu meðal nemenda. Jafnframt er þetta tækifæri fyrir kennara á mismunandi stigum að vinna saman.

Á vinadögum skipuleggja kennarar a.m.k. 2 heimsóknir á milli vina inn á hvort heimasvæði. Í þessum heimsóknum er ýmislegt hægt að gera, eins og að spila, læra saman, hafa lestrarstund, skreyta heimasvæðin, búa til eitthvað fallegt, fara í ratleik, eldri nemendur aðstoða yngri við að læra, búa til jólagjafir, pakka inn, búa til jólakort, fara í gönguferðir o.s.frv. Einnig fara vinir saman í söngstundir sem verða í desember og á Litlu jólunum dansa vinir saman í kringum jólatréð. Þá sækja eldri vinir þá yngri og fylgja þeim í Fjallasal.