Kirkjuferð 11. og 13. desember
Við höfum ákveðið að bjóða nemendum í 1. – 4. bekk Sunnulækjarskóla, að fara til kirkju í næstu viku. 1. og 3. bekkur fara þriðjudaginn 11. desember, en 2. og 4. bekkur fara fimmtudaginn 13. desember. Starfsfólk kirkjunnar mun taka á móti okkur og eiga með okkur friðsæla stund í kirkjunni. Ekið verður báðar leiðir í fylgd kennara og stuðningsfulltrúa. Þeir foreldrar sem ekki vilja þiggja þetta boð eru beðnir um að hafa samband við Guðfinnu, skólaritara og láta vita af því.
Jóladiskó 13. desember
Jóladiskó verður hjá nemendum í 8.-10. bekk fimmtudaginn 13. desember frá kl.19:00-22:00. Við höfum boðið Vallaskóla og BES að vera með okkur þetta kvöld.
Litlu jól 20. desember
Litlu jólin í Sunnulækjarskóla verða fimmtudaginn 20. desember. Eins og áður verður jólaskemmtuninni tvískipt og munu eldri nemendur sækja yngri nemendur og fylgja þeim að jólatrénu. Þannig munu nemendur í 1., 4., 6., og 9. bekk halda sína jólaskemmtun kl. 9:10 – 10:45 og nemendur 2., 3., 5., 7., 8. og 10. bekk kl. 11:00 – 12:35. Þennan dag mæta börn einungis á skemmtunina.
Skemmtunin mun hefjast með jólaleikriti 4. bekkjar. Því næst fara nemendur til umsjónarkennara sinna og eiga jólastund í sínum umsjónarhópi. Þá verður gengið í kringum jólatréð í Fjallasal og hver veit nema jólasveinar líti í heimsókn með eitthvert góðgæti í poka.
Skólavistun verður opin frá kl. 7:45 og verður þeim börnum sem þar dvelja fylgt á jólaskemmtunina á réttum tíma. Þeir sem vilja nýta sér það þurfa að hafa samband við starfsfólk skólavistunar fyrir 7. desember. Öll börn fá kakó og flatkökur á stofujólum en ekki verður matur í mötuneyti skólans þennan dag. Þau börn sem fara á skólavist eftir skemmtun munu þó borða í skólanum.
Byrjum aftur 3. janúar 2013
Skólahald Sunnulækjarskóla mun svo hefjast að nýju fimmtudaginn 3. janúar og mæta nemendur þá samkvæmt stundaskrá.