Vikan 3. – 7. nóvember er sérstök vinabekkjavika í Sunnulækjarskóla. Í þeirri viku stofnum við til sérstakra vinatengsla milli nemenda í eldri og yngri bekkjum skólans. Þannig eignast allir nemendur í 5. bekk sérstakan vin í 10. bekk, allir í 4. bekk eignast vin í 9. bekk og svo koll af kolli. Þessi vinatengsl eru svo ræktuð allan veturinn. Eldri vinur sækir þann yngri og fylgir á ýmsa atburði s.s. söngstundir, jólaskemmtun og einnig á töfrasýninguna sem markaði upphaf vikunnar.
Í vikunni er einnig farið yfir eineltisyfirlýsingu Sunnulækjarskóla með öllum nemendum og mikilvægi vináttu tekin til umfjöllunar við ýmis tækifæri.
Á meðfylgjandi myndum má sjá vinabekkina 1. og 6. bekk hittast og vinna svo sameiginleg verkefni þar sem reynir á marga þætti samskipta, talaðs máls og ritunar.