Afrakstur góðgerðardaga afhentur

Nemendur Sunnulækjarskóla á Selfossi afhentu Sjóðnum góða í morgun 635.973 krónur sem söfnuðust á góðgerðardögum í skólanum í síðustu viku.

Á þemadögum í Sunnulæk framleiddu nemendur skólans reiðinnar ósköp af allskyns spennandi jólavarningi sem síðan var seldur gestum og gangandi á jólamarkaði föstudaginn 25. nóvember síðastliðinn. Allur ágóðinn af sölubásunum átti að renna óskiptur til góðgerðarmála í sveitarfélaginu.

Í morgun komu svo sr. Guðbjörg Arnardóttir og Erla G. Sigurjónsdóttir fyrir hönd Sjóðsins góða og tóku við þessari veglegu upphæð. Guðbjörg þakkaði nemendum Sunnulækjarskóla hjartanlega fyrir að vilja hjálpa öðrum sem þurfa hjálp fyrir jólin. „Þið eruð svo sannarlega búin að gera góðverk,“ sagði Guðbjörg við krakkana.

Sjóðurinn góði er samstarfsverkefni sóknarkirkja í Árnessýslu, Rauða krossins, félagsþjónustu Árborgar, félagsþjónustu Árnesþings og ýmissa félagasamtaka í Árnessýslu og hefur þann tilgang að veita aðstoð fyrir jólahátíðina til handa þeim sem ekki eiga fyrir nauðþurftum.

Afhendingin fór fram á söngstund í skólanum í morgun, en í dag er Dagur íslenskrar tónlistar og krakkarnir létu sitt ekki eftir liggja og tóku hraustlega undir í söng.

(Sjá vefur: sunnlenska.is)