Alþjóðlegi bangsadagurinn er 27. október ár hvert. Hann er haldinn hátíðlegur í fjölmörgum leik- og grunnskólum og á bókasöfnunum. Saga dagsins er á þá leið að Theodore (Teddy) Roosevelt fyrrum forseti Bandaríkjanna var eitt sinn á veiðum ásamt veiðifélögum sem allir höfðu náð að skjóta dýr en hann ekki. Félagar hans og hundar eltu uppi björn heillengi og þegar þeir náðu honum bundu þeir hann fastan við tré og sóttu svo Teddy og sögðu honum að skjóta björninn. Hann vildi það hins vegar ekki en vildi að björninn yrði drepinn til að lina þjáningar hans. Þessi atburður varð uppspretta skopmyndar sem birtist í Washington Post árið 1902 og varð kveikjan að framleiðslu tuskubangsa sem kallaður var Teddy´s bear (Bangsinn hans Tedda). Bangsinn varð strax mjög vinsæll og framhaldið vitum við öll. Nú er Alþjóðlegi bangsadagurinn haldinn hátíðlegur ár hvert á fæðingardegi Theodore Roosevelt.
Nemendur og starfsfólk í 5. og 6. bekk Sunnulækjarskóla ákváðu að láta bangsadaginn ekki framhjá sér fara og komu í skólann í náttfötum, með uppáhaldsbangsann sinn og gerðu sér glaðan dag föstudaginn 26. október.