Bíódagar

Síðustu daga hafa nemendur í 9. og 10. bekk unnið að verkefni í Kviku sem heitir Bíódagar. Verkefnið snýst um að gera stuttmynd og er mikil vinna sem nemendur leggja á sig í handritagerð, finna búninga, taka upp, klippa og vinna hljóð. Þetta er í sjöunda skipti sem Bíódagar eru haldnir og hefur verkefnið stækkað ár frá ári og metnaður nemenda aukist. Þemað í ár var ,,Dagurinn sem allt breyttist” og afrakstur nemenda var virkilega frábær. 

Við fengum góða gesti í heimsókn þessa daga sem unnið var að myndunum. Rakel Ýr Stefánsdóttir leikstjóri, kvikmyndagerðarkona og fyrrum nemandi Sunnulækjarskóla hitti nemendur og sagði þeim frá kvikmyndagerð, sýndi þeim verk og gaf nemendum ráð. Arnbjörg Ýr Sigurðardóttir fyrrum nemandi okkar kom einnig í heimsókn og gaf nemendum ýmis ráð þegar kemur að vinnslu bíómynda. Þessi kennsla sem nemendur fengu frá þeim skilaði sér augljóslega í bíómyndunum í ár og kunnum við þeim okkar bestu þakkir. 

Föstudaginn 24. maí fjölmenntum við í Bíóhúsið þar sem afrakstur nemenda var sýndur fyrir fullum sal nemenda. Við þökkum Bíóhúsinu kærlega fyrir að taka enn og aftur vel á móti okkur. 

Vinningshafar fengu verðlaun frá fyrirtækjum á svæðinu sem við þökkum kærlega fyrir stuðninginn, Pylsuvagninn, Penninn Eymundsson, Skyrland, Bíóhúsið, Sjafnarblóm,Takkó, Röstí, Menam, Subway, Flying Tiger, 1905 Blómahús og Romano. Það er ykkur að þakka að við getum heiðrað nemendur fyrir vel unnin störf. 

Við óskum sigurvegurum innilega til hamingju og viljum hrósa öllum frábæru unglingunum okkar sem hafa lagt mikinn metnað í stuttmyndagerð síðustu vikur.  

Sigurvegarar Bíódaga 2023:  

    Besti leikari í aðalhlutverki: Gabríela Elimarsdóttir nemandi í 9. bekk 

 Besti leikari í aukahlutverki: Jón Tryggvi Sverrisson nemandi í 10. bekk 

Verðlaun fyrir upptöku og klippingu: Björgvin Hermannsson og Kristján Breki Jóhannsson nemendur í 10. bekk fyrir myndina Villtir í sveitinni 

Verðlaun fyrir förðun og búninga: Dagný Bára Stefánsdóttir og Díana Lind Ragnarsdóttir nemendur í 9. bekk fyrir bíómyndina Hin systirin 

Besta myndin í ár var Kung fu Örn nemendur sem unnu þá mynd voru þeir Grímur Chunkuo Ólafsson, Haukur Harðarson, Heiðar Þór Bjartmarsson, Valur Harðarson, Viktor Zielke og Þórir Ísak Steinþórsson nemendur í 10. bekk 

Einar Ari Gestsson nemandi í 10. bekk var heiðraður vegna vinnu sinnar við Bíódaga en hann klippti bíómyndir nemenda saman í eina mynd sem var síðan sýnd í Bíóhúsinu.