Jólakveðja

Við óskum ykkur gleðilegra jóla og þökkum fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða.
Hlökkum til að taka á móti nýju ári með nýjum tækifærum. Nemendur mæta aftur til skóla þriðjudaginn 3. janúar samkv. stundatöflu.

Meðfylgjandi er lítil jólasaga sem skrifuð er af tveimur nemendum í 6. bekk

Leitin af jólasveinunum

Það er kaldur mánudags morgun og pabbi kallar á Nínu og Krumma til að fá sér morgunmat. Það er hafragrautur í matinn og Nína elskar hafragraut en henni finnst samt brokkolí betra þannig að hún ákveður að setja brokkolí út á hafragrautinn og það finnst Krumma ógeðslegt. Eftir að þau eru búin að bursta tennur og klæða sig labba þau af stað í skólann. Þegar þau eru komin inn í skólann voru allir að tala um að Stekkjastaur kæmi í nótt. Nína og Krummi voru búin að gleyma því en þau urðu alveg svakalega spennt. Skólinn kláraðist og allir krakkarnir fóru spenntir heim. Kvöldið kom og það voru bjúgu í matinn það finnst krökkunum báðum mjög gott og auðvitað fékk Nína sér brokkolí með. Nóttin skellur á og krakkarnir eru sofnuð. Daginn eftir kíkja krakkarnir í skóna sína en það var ekkert í skónum þeirra. Þau fara fram og segja pabba sínum að það hafi ekkert verið í skónum þeirra. Þau fá sér morgunmat og labba svo í skólann. Krakkarnir voru öll svolítið leið því þau fengu ekkert í skóinn heldur og það fannst Nínu og Krumma grunsamlegt. Skóladagurinn leið og Nína og Krummi voru búin að ákveða að fara upp í Ingólfsfjall að kíkja hvað væri á seyði hjá honum Stekkjastaur. Eftir skóla fóru þau labbandi upp að Ingólfsfjalli. Þegar þau komu að Ingólfsfjalli var byrjað að snjóa og þau urðu mjög glöð með það. Þau vissu að hurðin væri vinstra megin í fjallinu. Þau löbbuðu upp og sáu þar risastóra hurð. Þau vissu að þetta væri hurðin hjá jólasveinunum, þannig að þau prófuðu að banka en það kom enginn til dyra. Krummi opnaði hurðina og heyrði háa jólatónlist. Þau löbbuðu inn og sáu þar jólasveinana vera að drekka heitt kakó og borða sætindi og piparkökur. Krakkarnir sáu Stúf vera að búa til piparkökuhús og þau spurðu hann hvar Stekkjastaur væri. Stúfur fór og sótti Stekkjastaur. Þegar Stekkjastaur kom spurðu krakkarnir hann af hverju hann kom ekki að gefa í skóinn hann sagði að hann hafi bara gleymt sér því það var svo gaman heima. Stekkjastaur bauð þeim að vera með í partíinu og lofaði að gleyma sér ekki aftur.