8. nóvember – dagur gegn einelti

Í dag hófst vinabekkjaverkefni Sunnulækjarskóla. Vinabekkjaverkefnið er fólgið í því að allir nemendur skólans mynda vinatengsl milli einstakra nemenda í eldri og yngri bekkjum. Markmið verkefnisins er að nemendur á ólíkum aldri kynnist og að efla samkennd og virðingu meðal nemenda. Þannig mynda nemendur í 6. bekk vinatengsli við nemendur í 1. bekk, nemendur í 7. bekk við nemendur í 2. bekk og svo koll af kolli. Kennarar skipuleggja a.m.k. 3 heimsóknir á milli vina inn á hvort heimasvæði í nóvember og desember. Einnig fara vinir saman í söngstundir sem verða í desember og á Litlu jólunum dansa vinir saman í kringum jólatréð. Þá sækja eldri vinir þá yngri og fylgja þeim í Fjallasal.

Í morgun söfnuðust nemendur saman í Fjallasal og var fjallað um mikilvægi þess að eiga vini og að allir séu góðir við aðra.  Þá var eineltisyfirlýsing Sunnulækjarskóla samþykkt með handauppréttingu.  Einelti í Sunnulækjarskóla hefur aldrei mælst minna en í síðustu mælingu skólapúlsins og settu nemendur sér það mark að útrýma því alveg í vetur.

Að lokum sungu nemendur vinalög og nutu forsöngs Katrínar Jónu, Kolbrúnar Dagmarar og Freydísar Aspar auk þess sem Helena Freyja í 3. bekk leiddi sönginn í lokalaginu, „Allir þurfa að eiga vin“.