Kertasund á aðventunni
Í síðustu viku var kertasund í öllum sundtímum. Þá synda nemendur með logandi kerti í sundlauginni og hlusta á jólalög. Mikil stemming var í sundlauginni þegar kertaljósin spegluðust í gáróttu vatninu.
Smákökumaraþon í Sunnulækjarskóla
Nemendur í 8., 9. og 10. bekk Sunnulækjarskóla mættu í smákökumaraþon í skólanum s.l. fimmtudagskvöld og bökuðu smákökur allt hvað af tók.
Að loknum bakstrinum voru komnar um 5.500 smákökur. Nemendurnir færðu síðan eldri borgurum í Grænumörk, dvalargesturm í Vinaminni, Selfosskirkju og félagsþjónustu Árborgar kökurnar að gjöf með góðum óskum um gleðileg jól.
Óhætt er að segja að framtakið gladdi bæði gefendur og þiggjendur og skapar samstöðu og hlýhug í anda jólanna.
Vinadagar í Sunnulækjarskóla
Sérstakir vinadagar eru í Sunnulækjarskóla á hverju ári og hefjast þeir yfirleitt í byrjun desember. Þá eru mynduð vinatengsl milli eldri og yngri nemenda skólans.
Sunnulækjarskóli í jólafötin
Í dag var skreytingadagur í Sunnulækjarskóla. Dagurinn hófst með sameiginlegri söngstund í Fjallasal en síðan gengu nemendur til þess verks að búa skólann í jólabúning.
Allt jólaskrautið sem safnast hefur frá fyrri árum var dregið fram og því komið fyrir á þeim stöðum sem vera ber auk þess sem mikið var föndrað og framleitt af nýju skrauti.
Skreytingardagur
Föstudaginn 26. nóvember verður skreytingadagur. Þá mun öll hefðbundin kennsla (þ.m.t. íþróttir og verkgreinar) verða lögð til hliðar. Nemendur vinna á stöðvum en í boði verður m.a. föndurstöð, spila- og leikjastöð, íþróttastöð og stílistastöð, en nemendur á þeirri stöð bera ábyrgð á að skreyta skólann þennan dag.