Í tilefni af konudeginum
Í tilefni af konudeginum í 6. RG beið leynigjöf frá ungum herramanni. Á borðinu í heimakrók var blómavasi merktur „Til hamingju með konudaginn“. Í vasanum voru rósir handa hverri dömu í bekknum. Viljum við nota tækifærið og þakka kærlega fyrir okkur. Kveðja, Stelpurnar í 6. RG
100 daga hátíð
Nemendur í 1. og 2. bekk héldu 100 daga hátíð saman og mættu allir í náttfötum og fengu að koma með dót. Boðið var uppá ýmislegt skemmtilegt að gera þennan dag eins og til dæmis að horfa á mynd, kubba, lita og leika með dótið sitt. Skemmtu bekkirnir sér vel saman þennan dag.
5. bekkur heimsækir Ljósheima
Föstudaginn 10. febrúar fór 5. bekkur í Sunnulækjarskóla í heimsókn á Ljósheima. Ferðin gekk framúrskarandi vel. Nemendur voru til fyrirmyndar, sungu fyrir gamla fólkið og settust svo hjá því, kynntu sig og spjölluðu. Mátti vart á milli sjá hvor kynslóðin hafði meira gaman af.
Fundur um endurskoðun skólastefnu Árborgar
Fimmtudaginn 2. febrúar var haldinn sameiginlegur fundur allra skóla- og foreldraráða grunn- og leikskóla í sveitarfélaginu Árborg. Fundurinn, sem var haldinn í Sunnulækjarskóla, var samráðs og hugmyndavinnufundur. Honum var ætlað að safna saman hugmyndum, gildum og markmiðum sem stefna bera að og mikilvægt er að hafa í huga við endurskoðun núverandi skólastefnu sveitarfélagsins.
Kynning á FSu og ML
Þriðjudaginn 31. janúar var haldinn kynningarfundur í Sunnulækjarskóla á tveimur framhaldsskólum, Fjölbrautarskóla Suðurlands og Menntaskólanum á Laugarvatni. Það voru námsráðgjafar skólanna sem komu ásamt fulltrúum nemenda og kynntu skóla sína fyrir nemendum 10. bekkjar Sunnulækjarskóla og foreldrum þeirra. Fundurinn var vel sóttur og greinilegt að skemmtilegur tími er í vændum hjá unglingunum okkar.